Viggó Kristjánsson fór á kostum í kvöld og skoraði 10 mörk og átti fjórar stoðsendingar þegar HC Erlangen vann HSG Wetzlar, 33:26, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Eins og oft áður þá bar Seltirningurinn uppi leik Erlangen-liðsins sem færðist upp í 10. sæti deildarinnar með þessum örugga sigri á heimavelli.
Andri Már Rúnarsson nýtti sitt tækifæri afar vel og skoraði alls fimm mörk í sex skotum fyrir Erlangen-liðið. Andri Már skoraði tvisvar úr vítaköstum en Viggó einu sinni.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk í naumu tapi MT Melsungen í heimsókn til THW Kiel í hafnarborgina, 31:29. Arnar geigaði á einu skoti. Hann lét einnig til sín taka í vörninni.
MT Melsungen er á sömu slóðum og HC Erlangen, stigi ofar, í níunda sæti.
Reynir Þór Stefánsson var ekki í leikmannahópi MT Melsungen.