„Þetta var erfiður leikur, erfiður dag og margt sem ekki gekk. Við misstum tökin snemma leiks,“ segir Sigursteinn Arndal þjálfari FH í viðtali við samfélagsmiðla félagsins eftir átta marka tap, 31:23, fyrir Nilüfer BSK í fyrri viðureign liðanna í 3. umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik í Bursa í Tyrklandi í dag. Síðari leikurinn fer fram á morgun.
„Við vorum á eftir í vörninni allan fyrri hálfleikinn. Fyrir vikið náðu þeir frumkvæðinu. Stemningin var eftir því. Við töpuðum fyrir betra liði í dag eftir að hafa verið á eftir í alltof mörgum þáttum leiksins,“ segir Sigursteinn.
„Eina sem við getum gert fyrir síðari leikinn er að líta inn á við og draga okkar lærdóm. Einnig megum við ekki gleyma því að það er vegna svona leikja sem við erum að taka þátt í Evórpukeppni ár eftir ár, til að gefa okkar ungu mönnum tækifæri á þessu sviði,“ segir Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við samfélagsmiðla FH. Upptöku af viðtalinu er að finna neðst í greininni.
Átta marka tap FH í fyrri leiknum í Bursa

Óttast krossbandaslit
Þórir Ingi Þorsteinsson ungur leikmaður FH meiddist illa snemma leiks sem átti einnig sinn þátt í að slá FH-inga út af laginu. Óttast er að krossband í hné hafi slitnað en staðfesting bíður þangað til Þórir kemur heim eftir helgina.