Úlfar Páll Monsi Þórðarson heldur áfram að gera það gott með RK Alakloid í úrvalsdeildinni í Norður Makedóníu. Í gær var Monsi markahæstur við annan mann með sjö mörk þegar RK Alakloid lagði HC Tinex Prolet, 29:20, í áttundu umferð deildarinnar. Leikið var á heimavelli HC Tinex Prolet.
Monsi skoraði mörkin sín sjö í níu skotum. Þrjú markanna skoraði Monsi úr vítaköstum og eitt eftir hraðaupphlaup.
RK Alkaloid er í efsta sæti með 14 stig að loknum átta leikjum. Vardar Skopje er með sama stigafjölda en á leik til góða. HC Ohrid og Eurofarm Pelister koma þar á eftir með 11 stig hvort.
Sá fyrsti í Norður Makedóníu
Monsi gekk til liðs við RK Alkaloid í sumar og er fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn sem reynir fyrir sér hjá félagsliði í Norður Makedóníu. Félagið er með bækistöðvar í höfuðborginni, Skopje.
Þjálfari RK Alkaloid er Kiril Lazarov, þekktasti handknattleiksmaður Norður Makedóníu. Undir hans stjórn vann RK Alkaloid Evrópubikarkeppnina í vor.