Evrópumeistarar SC Magdeburg er áfram taplausir í þýsku 1. deildinni í handknattleik eftir átt leiki. Liðið átti ekki í teljandi vandræðum með að vinna stórsigur á neðsta liði deildarinnar, Leipzig, 36:23, í dag þegar liði mættust á heimavelli Leipzig. Eftir leikinn er Magdeburg í öðru sæti deildarinnar með 15 stig, einu stigi og einum leik á eftir THW Kiel.
17 mörk hjá þremur
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon voru samstíga að mörgum leyti í leiknum. Þeir skoruðu sjö mörk hvor fyrir Magdeburg og áttu einnig sjö stoðsendingar hvor. Ómar Ingi skorði fjögur marka sinna úr vítaköstum.
Elvar Örn Jónsson lét einnig til sín taka, jafnt í vörn sem sókn. Hann skoraði þrisvar og átti eina stoðsendingu.
Tvö mörk hjá Blæ
Blær Hinriksson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu fyrir lið Leipzig sem situr í neðsta sæti með eitt stig eftir níu leiki. Framundan eru væntanlega leikir gegn veikari liðum deildarinnar en Leipzig hefur mætt nokkrum af sterkari liðunum í síðustu umferðum.
Einar Þorsteinn fagnaði sigri
Einar Þorsteinn Ólafsson og liðsfélagar í HSV Hamburg hrósuðu naumum sigri á Gummersbach, 31:30, í Hamborg í dag. Sigurinn færði Hamborgarliðið upp í 10. sæti af 18 liðum deildarinnar. Gummersbach er með 14 stig í sjötta sæti en er aðeins tveimur stigum á eftir toppliðinu, THW Kiel. Að vanda kom Einar Þorsteinn aðallega við sögu í varnarleik HSV Hamborg. Honum var einu sinni vikið af leikvelli.
Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Gummersbach-liðið sem að vanda er þjálfað af Guðjóni Val Sigurðssyni.
Tap hjá Heiðmari
Nýliðar GWD Minden unnu Hannover-Burgdorf, 33:30, í Lübbecke í dag. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Liðið er í 12. sæti og hefur alls ekki náð sér á sama skrið í deildinni til þessa og á síðustu og þar síðustu leiktíð. Minden er í 15. sæti.