- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Fram tókst að velgja þeim norsku undir uggum

- Auglýsing -

Norska meistaraliðið Elverum vann Íslandsmeistara Fram, 35:29, í viðureign liðanna í 2. umferð riðlakeppni 32-liða úrslita Evrópudeildar karla í handknattleik í Lambhagahöllinni í kvöld. Staðan var jöfn í hálfleik, 19:19. Í síðari hálfleik kom getu og styrkleikamunur liðanna betur í ljós, ekki síst síðustu 15 mínúturnar þegar mjög vængbrotið lið Fram þraut afl eftir að hafa velgt þeim norsku verulega undir uggum lengi vel.

Næsta viðureign Fram í Evrópudeildinni verður 11. nóvember gegn HC Kriens-Luzern í Sviss. Viku síðar mætast liðin í Lambhagahöllinni. Lokaleikur Fram í þessum hluta keppninnar verður í Elverum 2. desember. Í millitíðinni, þriðjudaginn 25. nóvember sækir Fram liðsmenn Porto heim.


Eftir erfiðar upphafsmínútur leiksins þegar Elverum skoraði nánast úr hverri sókn tókst Framliðinu að vinna sig inn í leikinn þegar á leið fyrri hálfleik. Breki Hrafn Árnason markvörður mætti til leiks um miðjan hálfleikinn og varði allt hvað af tók. Framganga hans virtist efla trú félaga hans á verkefnið.

Framliðið jafnaði metin og komst yfir, 17:16, þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks. Rúnar Kárason sá svo um að jafna metin eftir vel út færða sókn á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks.

Framarar náðu að halda í við Elverum fyrstu 10 til 15 mínútur síðari hálfeiks. Eftir það fór þrekið að segja til sín og reynslan. Margir öflugir leikmenn Fram eru á sjúkralista og lítt reyndir leikmenn verða að bera upp leik liðsins í meira mæli en ella.

Lið Elverum er nær eingöngu skipað atvinnumönnum í handknattleik. Það var ljósara þegar á leið. Töluverður munur var á líkamlegum styrk flestra leikmanna Fram og liðsmanna Elverum.

Framarar geta verið ánægðir með frammistöðu sína þrátt fyrir tap. Að halda í við norsku meistarana, atvinnumannalið, í 45 mínútur með mjög vængbrotið lið er svo sannarlega viðunandi.


Mörk Fram: Rúnar Kárson 7, Ívar Logi Styrmisson 6/4, Theódór Sigurðsson 5, Dagur Fannar Möller 5, Eiður Rafn Valsson 4, Torfi Geir Halldórsson 1, Max Emil Stenlund 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 15, 38,5% – Arnór Máni Daðason 0.

Mörk Elverum: Péter Lukács 11/4, Mario Matic 6, Kevin Maagerø Gulliksen 5/1, Sondre Gjerdalen 4, Benjamin Berg 4, Dominik Mathé 3, Erik Thorsteinsen Toft 2.
Varin skot: Rickard Daniel Frisk 14, 34,1% – Vegard Bakken Øien 0.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -