„Eins og oft er sagt í handboltanum þá vinnur vörn leiki og mér fannst það skína vel í gegn í þessum leik þar sem varnarleikur HK hélt Þórsurum löngum stundum frá markinu,“ sagði Vignir Stefánsson sérfræðingur Handboltahallarinnar um varnarleik HK í viðureigninni við Þór í 7. umferð Olísdeildar karla í handknattleik.
HK vann leikinn við Þór með átta marka mun, 32:24, í Íþróttahöllinni á Akureyri. Var þetta þriðji sigur HK í röð.
„Markvörður HK varði aðeins sex skot, það var ekki eins og hann lokaði markinu. Samt vann HK með átta marka mun,“ sagði Vignir ennfremur.
„Varnarleikur HK var frábær og Styrmir Máni fyrir miðri vörninni fór á kostum,“ bætti Vignir við.
Voru bara ekki tilbúnir í þessa baráttu
„Þórsarar voru bara ekki tilbúnir í þessa baráttu. Eitthvað yfirstress og kannski búið að leggja þetta upp sem úrslitaleik sem við verðum að vinna. Þeir bara höndluðu þetta ekki,” sagði Einar Ingi Hrafnsson annar sérfræðingur Handboltahallarinnar.
Næstu leikir
Næsti leikur Þórs í Olísdeild karla fer fram í kvöld þegar lið Selfoss kemur í heimsókn í Íþróttahöllina á Akureyri kl. 18.30. HK-ingar mæta Fram í Kórnum á laugardaginn kl. 14.30.
Olísdeild karla – staðan og næstu leikir