- Auglýsing -
- Ólafur Örn Haraldsson verður eftirlitsmaður EHF á viðureign IK Sävehof og Viborg í fyrri leik liðanna í annarri umferð forkeppni Evrópudeildar kvenna í handknattleik. Leikurinn fer fram í Partille í Svíþjóð á morgun og hefst klukkan 14.30. Landsliðskonan Elín Klara Þorkelsdóttir leikur með IK Sävehof.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði fjögur mörk og gaf átta stoðsendingar í níu marka sigri Alpla Hard á Margarete, 38:29, í 1. deild austurríska handknattleiksins í gær. Leikið var á heimavelli Alpla Hard í Bregenz. Tryggvi Garðar Jónsson skoraði eitt mark og átti eina stoðsendingu. Tryggvi varði auk þess tvö skot í vörninni og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
- Hannes Jón Jónsson er þjálfari Alpla Hard sem situr í fjórða sæti deildarinnar með níu stig eins og fimm önnur lið. Þrjú þeirra hafa lokið sjö leikjum.
- Óðinn Þór Ríkharðsson og samherjar í Kadetten Schaffhausen komust í 8-liða úrslit bikarkeppninnar í Sviss í gær með öruggum sigri á smáliðinu SG Fides St. Gallen, 36:26, á útivelli. Óðinn Þór kom ekkert við sögu í leiknum.
- Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði tvisvar þegar FC Porto vann Marítimo Madeira á eyjunni fögru, 34:28, í efstu deild portúgalska handknattleiksins í gærkvöld.
- Stiven Tobar Valencia var ekki á meðal þeirra sem skoruðu fyrir Benfica í þriggja marka sigri Lissabon-liðsins á ABC de Braga, 34:31, á heimavelli í gær í efstu deild portúgalska handknattleiksins.
- Porto og Benfica eru efst og jöfn að stigum með 28 stig hvort eftir 10 umferðir í efstu deildinni. Meistarar Sporting koma næst á eftir með 24 stig en hafa aðeins lokið átta viðureignum.
- Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -




