Ein af fjáröflunum meistaraflokksliðs Vals í handknattleik kvenna vegna þátttöku í Evrópukeppni var að efna til hádegisverðar í dag þar sem boðið var upp á snitsel og meðlæti að hætti Þjóðverja í tilefni þess að Valur mætir þýska stórliðinu HSG Blomberg-Lippe í forkeppni Evrópudeildarinnar í N1-höllinnni á sunnudaginn klukkan 17. Margir nýttu tækifærið og snæddu dýrindis hádegisverð og studdu Valsliðið um leið.
„Eins og margoft hefur komið fram þá söfnum við fyrir þátttökunni í Evrópukeppninni. Til þess þarf að fara ýmsar leiðir. Okkur datt í hug að vera með hádegisverð og tengja hann um leið við Þýskaland og liðið sem við mætum á sunnudaginn. Auk þess þá þurfa allir að borða hádegismat,“ sagði Hildur í samtali við tíðindamann handbolta.is eftir að hann hafði sporðrennt snitseli og meðlæti.
Hildur segir að þátttakan kosti sitt en til þess að mæta kostnaði leggi leikmenn á sig ýmsa vinnu auk þess að selja ýmsan varning. „Við erum tilbúnar að leggja á okkur þá vinnu sem þarf til þess að eiga möguleika á að leika hörkuleiki við lið úti í heimi,“ segir Hildur en skemmst er að minnast frábærs árangurs Valsliðsins í vor þegar það varð Evrópubikarmeistari.
Lengra viðtal við Hildi er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Leikur Vals og HSG Blomberg hefst klukkan 17 á sunnudaginn í N1-höllinni á Hlíðarenda.
Miðasala á leikinn á sunnudaginn.





