Áfram er á brattann að sækja hjá Blæ Hinrikssyni og samherjum hans í þýska 1. deildarliðinu Leipzig. Þeir töpuðu í kvöld tíunda leik sínum í deildinni er þeir sóttu nýliða GWD Minden heim, 32:26, eftir að jafnt var í hálfleik, 15:15. Leipzig rekur lestina í deildinni með tvö stig að loknum 12 leikjum. GWD Minden færðist upp í 14. sæti af 18 liðum deildarinnar með sjö stig.
Blær skoraði tvö mörk í fimm skotum og átti fimm stoðsendingar.
Jafntefli hjá Arnari Frey
Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk þegar MT Melsungen og Hannover-Burgdorf skildu jöfn í Rothenbach-Halle í Kassel, 29:29, í jafnri viðureign. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
MT Melsungen situr í sjöunda sæti með 14 stig. Hannover-Burgdorf er með níu stig í 13. sæti. Liðið er að rétta úr kútnum og hefur hlotið þrjú stig í síðustu tveimur leikjum.
Hákon Daði markahæstur
Í 2. deild þýska handknattleiksins skoraði Hákon Daði Styrmisson sex mörk og var markahæstur í tveggja marka sigri Eintracht Hagen á Bayer Dormagen á útivelli, 25:23. Hagen er áfram í efsta sæti, liðið hefur nú 19 stig eftir 11 leiki.

Elmar kom að 17 mörkum
Elmar Erlingsson átti sannkallaðan stórleik í kvöld er Nordhorn-Lingen vann HSC 2000 Coburg, 30:26. Elmar skoraði sjö mörk og gaf 10 stoðsendingar í sigurleiknum á heimavelli. Nordhorn situr í sjöunda sæti með 13 stig að loknum 11 leikjum.
Stöðuna í þýsku deildunum og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.




