Elín Klara Þorkelsdóttir og liðsfélagar í sænska úrvalsdeildarliðinu IK Sävehof leika ekki í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þegar keppni hefst í janúar. IK Sävehof tapaði síðari viðureigninni við danska úrvalsdeildarliðið Viborg, 39:30, í síðari umferð forkeppninnar í dag. Liðin skildu jöfn í Partille í Svíþjóð fyrir viku, 31:31.
Viborg verður á hinn bóginn eitt sextán liða í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en 16 lið taka þátt í henni og verða liðin dregin í fjóra riðla. Forkeppninni lýkur á morgun en þá mætast m.a. Valur og HSG Blomberg-Lippe á Hlíðarenda klukkan 17.
Elín Klara skoraði fjögur mörk fyrir IK Sävehof í leiknum sem fram fór á Jótlandi.
Viborg-liðið var sterkara frá byrjun til enda. Forskot liðsins var þrjú mörk í hálfleik, 19:16. Munurinn jókst þegar á leið síðari hálfleik.
HM er næst á dagskrá
Elín Klara fer nú að snúa sér að undirbúningi fyrir þátttöku með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu sem hefst eftir 11 daga í Þýskalandi.




