- Auglýsing -
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum í öruggum sigri Sporting Lissabon á Águas Santas, 38:21, á heimavelli í portúgölsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Sporting er efst í deildinni með 30 stig að loknum 10 leikjum og leik inni á Porto og Benfica sem einnig hafa 30 stig.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði þrjú mörk í níu skotum þegar lið hans, Skanderborg, tapaði með sex marka mun í heimsókn til Skjern, 34:28, í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Skanderborg AGF situr í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki. Skjern er tveimur stigum á eftir í fimmta sæti.
- Aalborg Håndbold er efst í dönsku úrvalsdeildinni með 24 stig eftir leiki eftir öruggan sigur á Bjerringbro/Silkeborg í gær, 35:29. Síðasti leikur 12. umferðar dönsku úrvalsdeildarinnar verður í kvöld þegar TMS Ringsted og TTH Holstebro mætast í Ringsted á Sjálandi. Íslendingar eru í báðum liðum.
- Dagur Gautason skoraði tvö mörk fyrir ØIF Arendal sem tapaði með níu marka mun á heimavelli fyrir Bergen Håndball, 35:26. Eftir jafnan fyrri hálfleik stakk Bergen-liðið af í síðari hálfleik. Arendal situr í 9. sæti með átta stig eftir 10 leiki.
- Birta Rún Grétarsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Fjellhammer í sex marka tapi liðsins fyrir Follo HK, 28:22, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í gær. Fjellhammer var þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13. Í síðari hálfleik hrökk sóknarleikur liðsins í baklás og liðsmenn Follo gengu á lagið. Fjellhammer í 12. sæti af 14 liðum með fjögur stig eftir níu leiki.
- Tjörvi Týr Gíslason skoraði tvö mörk fyrir HC Oppenweiler/Backnang í naumu tapi liðsins fyrir Elbflorenz, 33:32, á heimavelli í gær í 2. deild þýska handknattleiksins. HC Oppenweiler/Backnang rekur lestina í deildinni með tvö stig að loknum 11 leikjum.
- Viktor Petersen Norberg skoraði fjögur mörk og gaf tvær stoðsendingar fyrir Elbflorenz-liðið. Elbflorenz er í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig eftir 11 leiki.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -




