Danski handboltasíðan HBold segir frá því að samkvæmt upplýsingum RT Handball feti Norðmaðurinn Glenn Solberg í fótspor Guðmundar Þórðar Guðmundssonar og taki við þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins Fredericia HK snemma á næsta ári. Solberg hefur ekki unnið við félagsliða- eða landsliðaþjálfun síðan hann hætti óvænt með sænska landsliðið haustið 2024.
Jesper Houmark tók við þjálfun Fredericia HK þegar Guðmundur Þórður var leystur frá störfum síðla í september. Houmark, sem var aðstoðþjálfari hjá Guðmundi, var þá ráðinn til skamms tíma.
Undir stjórn Solberg varð sænska landsliðið Evrópumeistari 2022 og vann bronsverðlaun á EM 2024 og silfur á HM 2021.
Fljótlega eftir að Solberg hætti með sænska landsliðið tók hann við starfi hjá Olympiatoppen í Noregi sem m.a. hefur umsjón með undirbúningi norsks íþróttafólks fyrir stórmót.
Fredericia HK er í 11. sæti af 14 liðum dönsku úrvalsdeildarinnar og er fjarri þeim stað sem liðið var á en undir stjórn Guðmundar Þórðar lék Fredericia m.a. til úrslita um danska meistaratitilinn vorið 2023.


