„Þeir voru með nítján tapaða bolta í leiknum, einu sinni töpuðu þeir boltanum fimm sekúndum eftir leikhlé. Það stóð bara ekki steinn yfir steini,“ segir Einar Ingi Hrafnsson sérfræðingur Handboltahallarinnar um leik ÍBV og öll þau axarsköft sem leikmenn gerðu í viðureigninni við Fram í 10. umferð Olísdeildar karla á dögunum.
Í stöðunni 12:12 skoraði Fram fimm mörk í röð á fjögurra mínútna kafla eftir hver mistökin á eftir öðrum hjá Eyjmönnum. „Það er vont að koma inn í klefa eftir leik og vita að hafa kastað leiknum frá sér,“ segir Þórey Rósa Stefánsdóttir sem var sérfræðingur Handboltahallarinnar á mánudaginn með Einari Inga.
„Þeir misstu hausinn síðustu sjö mínútur fyrri hálfleiks. Þetta er ekki hægt að skrifa á þjálfarann,“ sagði Hörður Magnússon umsjónarmaður Handboltahallarinnar.
Í einu tilfella var boltinn dæmdur af ÍBV fyrir ólöglegt vítakast.
Myndskeið frá leikkaflanum þar sem ÍBV missti leikinn við Fram úr höndum er að finna hér fyrir neðan.




