- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Þjálfarafarsinn heldur áfram hjá RK Zagreb

- Auglýsing -

Áfram er losarabragur á þjálfaramálum króatíska meistaraliðsins RK Zagreb en í morgun var Andrija Nikolić látinn taka pokann sinn. Hann tók við þjálfun liðsins í maí þegar Velimir Petkovic var vikið úr starfi eftir aðeins sjö mánuði við stjórnvölinn. Nikolić var fjórtándi þjálfari RK Zagreb á síðustu 11 árum og það sem meira er, hann hefur orðið að hirða pokann sinn þrisvar hjá félaginu á síðustu 11 árum.

Gamall refur tekur við

Gamli refurinn Nenad Šoštarić tekur við af Nikolić. Šoštarić, sem lengi þjálfaði kvennalandslið Króatíu, þekkir vel til hjá RK Zagreb. Hann er einn af þessum 14 þjálfurum sem hafa spreytt sig við þjálfun RK Zagreb á síðustu árum. Hann tók við liðinu 2023 en var látinn víkja þegar Petkovic kom til sögunnar haustið 2024.

Þjálfarasaga RK Zagreb á undanförnum rúmum áratug er hreint ótrúleg enda segir það sig sjálft þegar 14 þjálfarar hafa staldrað við á þessum árum. Atvinnuöryggi þjálfara er vafalaust hvergi ótryggara.

Rekur lestina án stiga

RK Zagreb rekur lestina í B-riðli Meistaradeildar án stiga eftir átta leiki. Hins vegar stendur liðið vel að vígi í króatísku úrvalsdeildinni. RK Zagreb hefur einokað meistaratitilinn í Króatíu síðan deildarkeppnin var tekin upp þar í landi fyrir nærri 35 árum í kjölfar þess að Króatar lýstu yfir sjálfstæði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -