- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

„Þetta er fyrst og fremst varúðarráðstöfun“

- Auglýsing -

Alexandra Líf Arnarsdóttir leikmaður Hauka bættist inn í landsliðshópinn í handknattleik kvenna áður en farið var til Færeyja fyrr í dag. Að sögn Arnars Péturssonar landsliðsþjálfara ákvað hann að kalla inn Alexöndru vegna axlarmeiðsla Elísu Elíasdóttur leikmanns úr Val.

„Þetta er fyrst og fremst varúðarráðstöfun vegna meiðsla Elísu. Ég vona að hún verði svo klár í slaginn með okkur þegar HM hefst,“ sagði Arnar. „Meiðsli Elísu eru ekki alvarleg en þetta er eitthvað í öxlinni sem tók sig upp í leik Vals og Blomberg-Lippe á sunnudaginn.“

Færeyingum til sóma

Arnar var að ljúka við æfingu með landsliðinu í nýrri þjóðarhöll Færeyinga þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans. Arnar sagði keppnishöllina, sem tekin var í notkun snemma á þessu ári, vera í alla staði fyrsta flokks mannvirki. „Hér er um að ræða glæsilega íþróttahöll og Færeyingum til mikils sóma. Enn og aftur eru Færeyingar okkur Íslendingum fyrirmynd. Ég vildi gjarnan að svona ný keppnishöll væri risin heima,“ sagði Arnar sem stýrir íslenska landsliðinu í vináttuleik við færeyska landsliðið í þjóðarhöllinni, Við Tjarnir, klukkan 14 á morgun.

Íslenski hópurinn, sem nú er í Þórshöfn, fer þaðan til Þýskalands á mánudagsmorgun.

Andrea varð eftir heima

Andrea Jacobsen, sem er meidd á ökkla, varð eftir heima á Íslandi. Hún kemur til móts við íslenska hópinn í Þýskalandi á mánudaginn. Arnar sagði útlitið vera gott hjá Andreu en það hafi verið metið skynsamlegast í stöðunni að hún sleppti Færeyjaferðinni og héldi þess í stað áfram að vinna undir handleiðslu Tinnu Jökulsdóttur sjúkraþjálfara íslenska landsliðsins þar til þær fara til Þýskalands á mánudaginn.

Andrea Jacobsen varð fyrir því óláni að slita liðband í ökkla á æfingu fyrir hálfum mánuði. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á HM verður á miðvikudaginn gegn Þýskalandi í í Stuttgart.

Leikir Íslands í riðlakeppni HM kvenna:
26. nóvember: Þýskaland - Ísland, kl. 17.
28. nóvember: Ísland - Serbía, kl. 19.30.
30. nóvember: Ísland - Úrúgvæ, kl. 14.30.
- Leikirnir fara fram í Porsche-Arena, Stuttgart.
- Leiktímar að ofan eru miðaðir við Ísland.
- Þrjú lið fara áfram í milliriðla sem leiknir verða í Dortmund.
- Neðsta liðið fer í keppnina um forsetabikarinn í Hollandi.
- Blaðamaður og ljósmyndari frá handbolti.is fylgja landsliðinu eftir á HM.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -