Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna vann færeyska landsliðið í vináttuleik í þjóðarhöll Færeyinga, Við Tjarnir, í kvöld, 28:25. Þetta var síðasti vináttuleikur beggja landsliða áður en flautað verður til leiks á heimsmeistaramótinu í Hollandi og Þýskalandi á miðvikudaginn.
Íslenska liðið var með yfirhöndina lengst af viðureigninni í dag. Í hálfleik var staðan 13:11, Íslandi í vil. Forskot íslenska landsliðsins sveiflaðist frá einu og upp í fimm mörk allan síðari hálfleikinn.
Bæði landslið fara frá Færeyjum til Þýskalands á mánudaginn. Á morgun verður sameiginleg æfing landsliðanna í þjóðarhöllinni.
Ekki er hægt að útiloka að liðin mætast næst í milliriðlakeppni heimsmeistarmótsins í fyrstu viku desember.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður við þýska landsliðið í Stuttgart á miðvikudaginn kl. 17. Færeyingar leika við Svartfellinga sama dag í Tríer. Færeyska lansliðið er að fara í fyrsta sinn á heimsmeistaramót í kvennaflokki.
Mörk Íslands: Thea Imani Sturludóttir 6, Sandra Erlingsdóttir 6/4, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Katrín Tinna Jensdóttir 3, Dana Björg Guðmundsdóttir 2, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 2/1, Hafdís Renötudóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdótttir 1, Díana Dögg Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 8/2, 27%.
Mörk Færeyja: Pernille Brandenborg 4, Lív Sveinbjörnsdóttir Poulsen 4, Jana Mittún 4, Súna Krossteig Hansen 3, Maria Pálsdóttir Nólsoy 3, Karin Egholm 3, Anna Elisabeth H. Weyhe 2, Bjarta Osberg Johansen 1, Marianna Geirsdóttir Eystberg 1.
Varin skot: Rakul Wardum 7/1, 25% – Annika Fríðheim Petersen 4, 36%.
Tölfræði leiksins er afrituð af Vísir.is.



