Haukur Þrastarson og liðsfélagar í Rhein-Neckar Löwen töpuðu naumlega fyrir Füchse Berlin, 33:30, í hörkuleik á heimavelli í dag í 13. umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Haukur skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar. Línumaðurinn Jannik Kohlbacher naut sín vel í leiknum, ekki síst vegna samvinnu við Hauk. Kohlbacher skoraði níu mörk.
Mathias Gidsel var óstöðvandi hjá meisturunum. Hann skoraði 12 mörk í 13 skotum og gaf sjö stoðsendingar.
Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 15:15. Berlínarliðið var sterkara þegar á leið og tókst að knýja fram sigurinn.
Rhein-Neckar Löwen hefur 12 stig eftir 13 leiki í 10. sæti. Füchse Berlin er í þriðja sæti með 20 stig.
Andri öflugur – Viggó úr leik
Án Viggós Kristjánssonar tapaði HC Erlangen fyrir HSV Hamburg, 34:26, í Hamborg í dag. Viggó er meiddur um þessar mundir en hann er lykilmaður Erlangen-liðsins.
Andri Már Rúnarsson átti frábæran leik fyrir Erlangen. Hann skoraði átta mörk, tvö þeirra úr vítaköstum.
Unnu án Einars Þorsteins
Einar Þorsteinn Ólafsson var ekki í leikmannahópi HSV Hamburg í dag. HSV Hamborg er í 9. sæti en Erlangen er þremur sætum neðar.
Ýmir Örn tapaði í Kiel
Í gær skoraði Ýmir Örn Gíslason eitt mark fyrir FRISCH AUF! Göppingen er liðið tapaði með fjögurra marka mun í heimsókn til THW Kiel, 34:30. Heimamenn voru með yfirhöndina í leiknum frá byrjun til enda. Að loknum fyrri hálfleik var THW Kiel einnig með fjögurra marka forystu, 16:12.
Ludvig Hallbäck skoraði átta mörk fyrir Göppingen eins og Bence Imre leikmaður THW Kiel sem var atkvæðamestur við markaskorun.
Göppingen er í áttunda sæti þýsku 1. deildarinnar.
Gummersbach í fimmta sæti
Hollendingurinn Kay Smits skoraði sjö mörk og var markahæstur leikmanna Gummersbach er þeir lögðu lánlausa leikmenn Leipzig, 34:27, á heimavelli.
Elliði Snær Viðarsson skoraði tvisvar fyrir Gummersbach og Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark.
Gummersbach er í 5. sæti þýsku 1. deildarinnar með 19 stig, fjórum stigum á eftir SC Magdeburg sem trónir á toppnum eftir stórsigur á Wetzlar í gær, 33:20.
Blær Hinriksson skoraði tvö mörk fyrir Leipzig sem lék í fyrsta sinn undir stjórn Frank Carstens sem ráðinn var þjálfari á miðvikudaginn í kjölfar þess að Spánverjinn Raul Alonso varð að taka pokann sinn.
Leipzig er í neðsta sæti deildarinnar með tvö stig eftir 13 leiki, þremur stigum á eftir Wetzlar og Bergischer sem eru næst fyrir ofan.
Naumt tap fyrir Flensburg
Á föstudagskvöld töpuðu Arnar Freyr Arnarsson og samherjar MT Melsungen fyrir Flensburg á heimavelli, 35:32, í hörkuleik. Arnar Freyr skoraði tvö mörk fyrir Melsungen. Reynir Þór Stefánsson er ekki byrjaður að leika með Melsungen-liðinu.
Mohamed Amine Darmoul var markahæstur hjá Melsungen með átta mörk. Marko Grgić skoraði níu mörk fyrir Flensburg og Simon Pytlick átta.
Staðan:



