Serbneska landsliðið, sem verður einn þriggja andstæðinga íslenska landsliðsins í riðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna, tapaði öllum viðureignum sínum á Posten Cup, alþjóðlegu fjögurra liða móti sem lauk í Noregi í dag. Evrópumeistarar Noregs unnu stórsigur á Serbum í dag, 38:19, í lokaumferðinni.
Í gær beið serbneska landsliðið ósigur gegn spænska landsliðinu, 29:27. Var það eini sigur Spánverja á mótinu. Í fyrstu umferð mótsins á fimmtudagskvöld töpuðu Serbar fyrir Ungverjum, 29:25.
Norska landsliðið fór með sigur úr býtum á mótinu, vann örugglega allar þrjár viðureignir sínar. Ungverjaland vann tvo leiki og Spánn einn.
Ungverska landsliðið lagði það spænska í dag, 37:28, en spænska landsliðið hefur mátt muna sinn fífil fegurri síðustu árin.
Leikir Íslands í riðlakeppni HM kvenna:
26. nóvember: Þýskaland - Ísland, kl. 17.
28. nóvember: Ísland - Serbía, kl. 19.30.
30. nóvember: Ísland - Úrúgvæ, kl. 14.30.
- Leikirnir fara fram í Porsche-Arena, Stuttgart.
- Leiktímar að ofan eru miðaðir við Ísland.
- Þrjú lið fara áfram í milliriðla í Dortmund.
- Neðsta liðið fer í keppnina um forsetabikarinn.
- Blaðamaður og ljósmyndari frá handbolti.is fylgir íslenska landsliðinu eftir á HM.
Serbar hafa valið hópinn sem mætir Íslandi á HM


