Alexandra Líf Arnarsdóttir, sem kölluð var inn í landsliðið í handknattleik fyrir helgina áður en haldið var til Færeyja, verður 18. leikmaðurinn í íslenska hópnum sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu. Alexandra Líf fór ásamt öðrum leikmönnum landsliðsins, að Andreu Jacobsen undanskilinni, frá Færeyjum til Þýskalands í morgun.
Alexandra Líf, sem leikur með Haukum, var valin í hópinn fyrir Færeyjaleikinn vegna axlarmeiðsla Elísu Elíasdóttur. Elísa er enn þá í hópnum enda síður en svo útséð um að meiðslin haldi henni frá þátttöku á mótinu.
Alexandra Líf á tvo landsleiki að baki. Hún lék sinn fyrsta landsleik gegn Ísrael í vor í undankeppni HM. Alexandra Líf er línukona auk þess að vera öflug í vörninni.
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari sagði við handbolta.is á föstudaginn eftir að Alexöndru Líf var bætt í hópinn að fyrst og fremst væri um að ræða varúðarráðstöfun vegna meiðsla Elísu.
Önnur viðbótin
Fyrir viku var Matthildi Lilju Jónsdóttur bætt í hópinn vegna ökklameiðsla Andreu Jacobsen. Andrea kom í hádeginu í dag til München frá Íslandi ásamt nokkrum starfsmönnum HSÍ og landsliðsins.
Tefla má fram 16 leikmönnum í hverjum leik á HM.
Flogið var til Lúxemborgar
Sautján leikmenn auk þjálfara og starfsfólks landsliðsins flugu frá Vágum í Færeyjum í morgun í samfloti með færeyska landsliðinu. Flogið var til Lúxemborgar. Færeyska landsliðið leikur til fyrstu þrjá leiki sína á HM í Tríer, skammt frá Luxemborg.
Íslenska landsliðið ferðast með rútu frá Lúxemborg til München. Síðdegis verður styrktaræfing eftir ferðalagið. Á morgun verður æft í keppnissalnum í Porsche Arena í Stuttgart. Upphafsleikur íslenska landsliðsins á HM verður gegn þýska landsliðinu á miðvikudaginn klukkan 17.
HM kvenna ”25 – dagskrá, riðlakeppni
HM-hópur Íslands:
Markverðir:
Hafdís Renötudóttir, Valur (71/5).
Sara Sif Helgadóttir, Haukar (15/0).
Aðrir leikmenn:
Alexandra Líf Arnarsdóttir, Haukum (2/1)
Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Fram 10/8).
Andrea Jacobsen, HSG Blomberg-Lippe (66/116).
Dana Björg Guðmundsdóttir, Volda (13/27).
Díana Dögg Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe (66/89).
Elín Klara Þorkelsdóttir, IK Sävehof (27/94).
Elín Rósa Magnúsdóttir, HSG Blomberg-Lippe (32/60).
Elísa Elíasdóttir, Valur (25/19).
Katrín Anna Ásmundsdóttir, Fram (13/26).
Katrín Tinna Jensdóttir, ÍR (28/20).
Lovísa Thompson, Valur (31/66).
Matthildur Lilja Jónsdóttir, ÍR, (1/0).
Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Haukar (4/2).
Sandra Erlingsdóttir, ÍBV (39/161).
Thea Imani Sturludóttir, Valur (92/203).
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Valur (48/70).
Landsliðsþjálfari: Arnar Pétursson.
Aðstoðarþjálfari: Óskar Bjarni Óskarsson.
Markvarðaþjálfari: Hlynur Morthens.
Styrktarþjálfari: Hjörtur Hinriksson.
Sjúkraþjálfarar: Tinna Jökulsdóttir og Jóhanna Björk Gylfadóttir.
Liðsstjóri: Þorbjörg Jóhanna Gunnarsdóttir.
Leikir Íslands í riðlakeppni HM kvenna:
26. nóvember: Þýskaland - Ísland, kl. 17.
28. nóvember: Ísland - Serbía, kl. 19.30.
30. nóvember: Ísland - Úrúgvæ, kl. 14.30.
- Leikirnir fara fram í Porsche-Arena, Stuttgart.
- Leiktímar að ofan eru miðaðir við Ísland.
- Þrjú lið fara áfram í milliriðla sem leiknir verða í Dortmund.
- Neðsta liðið fer í keppnina um forsetabikarinn í Hollandi.
- Blaðamaður og ljósmyndari frá handbolti.is fylgja landsliðinu eftir á HM.



