Þau gleðitíðindi berast frá Szeged í Ungverjalandi að landsliðsmaðurinn Janus Daði Smárason hefur tekið upp þráðinn á ný með Pick Szeged eftir að hafa verið frá keppni síðan í lok september. Hann meiddist þá illa á hné í leik með ungversku bikarmeisturunum.
Janus Daði lék í rúmar 29 mínútur í gær þegar Pick Szeged mætti ETO University Handball Team í Pick Arena í Szeged. Hann skoraði tvö mörk og var auk þess vikið einu sinni af leikkvelli.
Víst að þátttaka Janusar Daða í leiknum í gær veit á gott fyrir landsliðið sem fer á Evrópumótið í janúar. Fyrst eftir að Janus Daði meiddist var óttast að hann missti af mótinu. Fljótlega eftir að meiðslin voru að fullu rannsökuð vöknuðu vonir um að Janus Daði næði góðri heilsu fyrir EM en að hann yrði mættur á leikvöllinn á ný af krafti í lok nóvember er væntanlega framar vonum.
Pick Szeged vann leikinn við ETO University Handball Team, 42:32, og situr í öðru sæti ungversku úrvalsdeildarinnar.
Næsti leikur Pick Szeged verður gegn RK Zagreb í meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld á heimavelli.



