- Auglýsing -
-Auglýsing-

Skrýtnar villur um íslenska landsliðið á HM eiga sér skýringar

- Auglýsing -

Margar staðreyndavillur eru um íslenska landsliðið í handknattleik kvenna í tímariti sem þýska handknattleikssambandið gefur út til kynningar á heimsmeistaramótinu og mbl.is segir frá. Sumar þeirra eru skrýtnar.

Villurnar eiga sér skýringar að einhverju leyti í margumræddum 35 kvenna lista sem valinn var í haust og er birtur á heimasíðu Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Sá listi á að vera upprunninn frá Handknattleikssambandi Íslands enda landsliðsþjálfarinn sem valdi þær 35 konur sem á listanum eru. Á umræddum lista úir og grúir í staðreyndavillum um íslenska landsliðið sem einnig eru étnar upp í kynningarefni á heimasíðu IHF.

Hvernig í ósköpunum allar villurnar hafa ratað inn í skjalið sem IHF birtir er ekki gott að segja um.

Dana Björg í Real Madrid

Listann má m.a. nálgast með því að smella hér. Á listanum er Dana Björg Guðmundsdóttir landsliðskona og leikmaður Volda m.a. skráð sem leikmaður Real Madrid sem ekki hefur haft kvennalið í handbolta á sínum snærum í háa herrans tíð. Sara Sif Helgadóttir markvörður Hauka og landsliðsins er sögð ennþá vera í Val og Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona og leikmaður Blomberg-Lippe er ennþá leikmaður BSV Sachsen Zwickau samkvæmt 35 kvenna listanum. Hún kvaddi það félag sumarið 2024.

Sara Sif Helgadóttir markvörður landsliðsins er Hauka er ennþá skráð í Val í gögnum IHF vegna HM. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Fleiri villur eru þar að finna eins og þá að Katrín Anna Ásmundsdóttir, leikmaður Fram og landsliðsins, er skráð í Gróttu. Hún fór frá félaginu í sumar til Fram.

Fleiri skráðar í röng félög

Einnig eru villur meðal leikmanna sem ekki eru með íslenska hópnum ytra en eru á 35 kvenna listanum. Má þar nefna að Sonja Lind Sigsteinsdóttir leikmaður Hauka er skráð í Stjörnuna og Tinna Sigurrós Traustadóttir er sögð vera á Selfossi. Nokkur ár eru síðan Sonja Lind gekk til liðs við Hauka frá Stjörnunni og Tinna Sigurrós gekk til liðs við Stjörnuna frá Selfossi sumarið 2024.

Endurtekið efni

Í kynningartexta með íslenska liðinu á heimasíðu IHF er Birna Berg Haraldsdóttir sögð vera ein lykilkvenna íslenska landsliðsins. Birna Berg er ekki í 18 kvenna hópnum sem mætir í Stuttgart vegna heimsmeistaramótsins og nokkuð síðan að hún var í burðarhlutverki. Væntanlega hefur höfundur textans í tímariti þýska handknattleikssambandsins sparað sér vinnu með því að afrita textann af heimasíðu IHF í stað þess að heyra í þjálfara íslenska landsliðsins.

Eitt er alveg á hreinu

Eitt er þó alveg á hreinu og það er að íslenska landsliðið mætir þýska landsliðinu í upphafsleik heimsmeistaramótsins í Stuttgart í dag. Flautað verður til leiks klukkan 18 og ætlar handbolti.is m.a. að fylgjast grannt með viðureigninni eins og öðrum leikjum Íslands á HM kvenna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -