Fjallað var um stórleik Arons Rafns Eðvarðssonar markvarðar Hauka gegn HK í Olísdeild karla í handbolta í síðasta þætti Handboltahallarinnar sem fór í loftið á mánudaginn. Aron Rafn var með um 50% markvörslu í leiknum og lék HK-inga grátt.
Frábær leikur Arons Rafns einn og sér fór þó ekki alveg með HK-inga því þeir voru sjálfum sér verstir í síðari hálfleik með mörgum töpuðum boltum og slökum leik. Engu var líkara en leikmenn misstu alveg móðinn í leiknum sem lauk með 14 marka tapi, 33:19.
Rakel Dögg Bragadóttir og Vignir Stefánsson fóru yfir frammistöðu Hauka og HK-inga í Handboltahöllinni. Hluta af þeirri umfjöllun er að finna hér fyrir neðan.
Haukar mæta í Mosfellsbæinn í kvöld og leika við Aftureldingu í Myntkaup-höllinni klukkan 19.30. Leikurinn verður sendur út á Handboltapassanum.



