Færeyingar brutu blað í íþróttasögu sinni í kvöld þegar kvennalandsliðið vann sinn fyrsta sigur í lokakeppni heimsmeistaramóts í handknattleik. Færeyska landsliðið vann Spán, 27:25, í hörkuleik í Tríer í Þýskalandi. Jana Mittun skoraði tvö síðustu mörk leiksins og innsiglaði þennan sögulega sigur en þetta var aðeins annar leikur færeysks landsliðs í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna.
Spánverjar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11. Færeyingar komust yfir, 16:15, snemma í síðari hálfleik en misstu frumkvæðið og voru tveimur mörkum undir, 23:21, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Lokakaflinn var spennuþrunginn. Spænska liðið reyndi hvað það gat en dugmikið færeyskt landslið stóðst álagið og vann sögulegan og sætan sigur.

Vinningurinn í kvöld tryggir Færeyingum tvö stig í milliriðlakeppninni þar sem íslenska landsliðið gæti orðið einn af þeirra andstæðingum. Færeyingar eiga eftir einn leik í riðlakeppninni, gegn Paragvæ á sunnudaginn. Paragvæ hefur ekki riðið feitum hesti frá leikjum sínum á mótinu til þessa.
Spánverjar mæta Svartfellingum á sunnudaginn. Svartfellingar hafa unnið báða leiki sína til þessa en lentu í kröppum dansi gegn Færeyingum á miðvikudagskvöld.
Brandenborg markahæst
Pemilie Brandenborg var markahæst hjá færeyska liðinu með sjö mörk. Jana Mittún skoraði sex mörk. Rakúl Wardum markvörður færeyska liðsins átti stórleik, varði 15 skot, 39%.
HM kvenna ”25 – dagskrá, riðlakeppni, úrslit



