- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valin í landslið Senegal

Britney Cots leikmaður FH í leik gegn Haukum í haust. Mynd/FH - Brynja Trausta
- Auglýsing -

Britney Cots, markahæsti leikmaður Olísdeildar kvenna, hefur verið valin í landsliðshóp Senegal sem verður í æfingabúðum í Cherbourg í Frakklandi frá 28. september til 3. október. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem Cots er kölluð inn til æfinga með A-landsliði Senegal.

Cots og FH-ingar verða að bíta í það súra epli að við komuna til Íslands eftir æfingabúðirnar verður hún að fara í sóttkví.  Gangi allt vel ætti Cots  samt að verða tilbúinn í leik með FH laugardaginn 10. október gegn HK í 4. umferð en hlé verður gert á keppni í deildinni eftir næstu helgi og til 9. október vegna alþjóðlegra landsliðadaga.  

Valið er mikil viðurkenning fyrir Cots og einnig FH en hún er núna að hefja sitt þriðja keppnistímabil með Hafnarfjarðarliðinu. Cots hefur tekið stöðugum framförum á þeim tíma sem hún hefur notið leiðsagnar Jakobs Lárussonar þjálfara FH.  Cots er eins og fyrr segir markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar eftir tvær umferðir með 22 mörk.

Hún framlengdi samning sinn við FH í vor til tveggja ára.

Landslið Senegal hefur verið í sókn á síðustu árum og tók m.a. í fyrsta sinn þátt í heimsmeistaramóti  á síðasta ári og náði viðunandi úrslitum. Það vann einn leik í riðlakeppninni gegn Kasakstan en tapaði fyrir landsliðum Spánar, Rúmeníu, Ungverjalands og Svartfjallalands án þess að fá skelli. Stærsta tapið var á móti Ungverjum, 30:20, í næst síðustu umferð riðlakeppninnar.  Í krossspili um 17. – 20. sæti vann Senegal landslið Kongó, 28:23, en tapaði fyrir landsliði Brasilíu, 22:18, í leik um 17. sætið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -