Sandra Erlingsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins segir að ekki hafi komið til umræðu innan kvennalandsliðsins að neita eða krefjast þess leika ekki í hvítum stuttbuxum. Landsliðskonur Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar skáru upp herhör gegn ljósum stuttbuxum í haust eins og handbolti.is sagði frá í október. Íslenska landsliðið hefur leikið í hvítum stuttbuxum í einum leik af þremur á HM fram til þessa og helmingi leikja, fjórum af átta á HM fyrir tveimur árum.
ÍBV leikur í svörtum buxum
„Umræðan hefur ekki verið uppi hjá landsliðinu, að minnsta kosti ekki ennþá, en hún hefur átt sér stað innan míns félags, ÍBV, og þess vegna lékum við í svörtum buxum í síðasta leik okkar fyrir HM,“ sagði Sandra við handbolta.is í dag.
Sandra sagði dæmi þess innan síns liðs, ÍBV, hafi „blætt í gegn“ hjá konum í leikjum eins og hún orðar það. „Ég hef fullkominn skilning á viðhorfi þeirra kvenna sem þurfa að hafa áhyggjur af þessu máli meðan þær einbeita sér að undirbúningi fyrir leiki. Það getur ekki verið þægilegt,“ segir Sandra og bætti við:
„Mér þætti gott ef frumkvæðið kæmi frá HSÍ, til dæmis með að breyta búningum og koma til móts við konur.“

Handknattleikssambönd Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar hafa snúið bökum saman og krafist þess að Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, breyti reglugerðum sínum um stuttbuxur kvenna á stórmótum landsliða. Þar er kveðið á um að annað búningasett landsliðs verði að vera með hvítum eða ljósum buxum.
Hefur fengið athugasemdir
Sandra segist hafa heyrt af athugasemdum frá fólki yfir að leikið væri í svörtum stuttbuxum vegna þess að búningurinn hefur alltaf verið hvítar buxur og hvítar treyjur. Eins minnist Sandra athugasemda frá árum sínum hjá Val þegar kvennaliðið lék í svörtum stuttbuxum í stað hvítra vegna þess að svartar buxur væri ekki hluti af búningi félagsins.
Skilning skortir hjá félögum
„Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að ef þeir sem ráða þessum málum hjá mörgum félögum stæðu í þeim sporum sem margar stelpur standa í myndu þeir breyta þessu eða hafa að minnsta kosti skilning á af hverju þessi barátta stendur yfir,“ sagði Sandra Erlingsdóttir fyrirliði kvennalandsliðsins í handknattleik.
„Vandamálið er að stelpurnar finna fyrir miklu óöryggi vegna þessa, og þegar leikmaður er á blæðingum er þetta eðlilega nokkuð sem er truflandi. Við höfum lengi viljað breyta þessu, en nú höfum við lagt fram formlega beiðni um það,“ sagði Mette Vestergaard, varaformaður danska handknattleikssambandsins og fyrrverandi landsliðskona Dana í handknattleik í samtali við TV2Sport.
Munum koma til móts við óskir
Jón Gunnlaugur Viggósson íþróttastjóri HSÍ segir umræður um að hætta að nota hvítar stuttbuxur hafi ekki verið innan HSÍ eða kvennalandsliðsins.
„Eðlilega eiga landsliðskonurnar að hafa eitthvað um þetta mál að segja og umræðan þarf að eiga sér stað bæði innan landsliðsins og stjórnar HSÍ. Ef kemur fram ósk um breytingar munum við að sjálfsögðu verða við þeim óskum þótt ekki sé hægt að gera það á miðju móti. En þessi umræða þarf að eiga sér stað,“ sagði Jón Gunnlaugur og minnti á að um árabil hafi landsliðið verið með þriðja litasettið í notkun, rauðar buxur við rauðar treyjur.



