Þýskland er öruggt með sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik eftir stórsigur á Svartfellingum, 36:18, í annarri umferð milliriðlakeppninnar í Westafalenhallen í Dortmund. Þýska liðið var tíu mörkum yfir í hálfleik, 16:6.
Svartfellingar eiga þar með fyrir höndum úrslitaleik við Serba á laugardaginn um að fylgja Þjóðverjum eftir í átta liða úrslit úr milliriðli tvö. Svartfellingar hafa fjögur stig en Serbar eru með fimm stig eftir jafntefli við Færeyinga í dag, 31:31.
Yfirburðir Þjóðverja voru miklir í leiknum í dag. Um miðjan fyrri hálfleik var staðan 12:2 fyrir Þýskaland. Svartfellingar voru alveg vindlausir eftir viðureignina við Íslendinga í fyrrakvöld.
Nina Engel var markahæst hjá þýska liðinu með sex mörk og Antje Döll skoraði fimm. Katharina Filter varði 11 skot, 48%.
Durdina Jauković, Dijana Trvic og Jelena Vukcevic voru markahæstar hjá Svartfellingum með þrjú mörk hver.




