- Auglýsing -
„Það var bras á okkur frá upphafi til enda og því miður þá áttum við ekkert sérstaklega góðan leik,“ sagði Magnús Sigmundsson einn þriggja þjálfara FH eftir að liðið tapaði fyrir KA/Þór, 33:16, í undanúrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik í Schenkerhöllinni í kvöld.
„KA/Þór átti hinsvegar mjög góðan leik að mínu mati. Vörnin var mjög góð og sóknarleikurinn var agaður, “ sagði Magnús og bætti við að leikur FH-liðsins hafi batnað í síðari hálfleik þótt frammistaða hafi alls ekki endurspeglað styrk og getu liðsins, hann sé meiri en raun bar vitni að þessu sinni.
„Munurinn var alltof mikill þegar upp var staðið og gefur ekki rétt mynd að okkar liði. Það var stress í mannskapnum og flestar að leika sinn fyrsta úrslitaleik. Ég er ánægður með margar af ungu stelpunum, þær gerðu eins og þær gátu. Við drögum lærdóm af þessum leik sem fer í reynslubankann hjá stelpunum,“ sagði Magnús Sigmundsson, einn þjálfara kvennaliðs FH.
- Auglýsing -