Viðureign Íslands og Færeyja í lokaumferð milliriðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í Westfalenhalle í kvöld verður söguleg fyrir báðar þjóðir. Í fyrsta sinn mætast landslið grann- og frændþjóðanna í landsleik í boltaíþrótt í lokakeppni stórmóts.
Færeyingar eru að taka í fyrsta sinn þátt í heimsmeistaramóti A-landsliða í boltaíþrótt, hvort heldur í kvenna- eða karlaflokki. Landsliðið hefur staðið sig afar vel og m.a. unnið Spánverja og gert jafntefli við Serba auk sigurs á Paragvæ á fyrsta stigi mótsins.
Ísland er með á HM í þriðja sinn, þar af í annað skiptið í röð.
Landslið Íslands og Færeyja hafa mæst tvisvar á síðustu vikum. Færeyingar unnu viðureign þjóðanna í undankeppni EM 2026 í Lambhagahöllinni 15. október, 24:22. Var það fyrsti sigur færeysks landsliðs á Íslandi í alþjóðlegri keppni í boltaíþrótt.
Fyrir hálfum mánuði mættust landsliðin í vináttuleik í þjóðarhöll Færeyinga, við Tjarnir. Íslenska liðið hafði þá betur, 28:25.
Viðureign Íslands og Færeyja hefst klukkan 19.30 í kvöld. Hvorugt liðið á möguleika á að komast áfram í átta liða úrslit og ljúka þar með þátttöku með þessum sögulega leik.




