- Auglýsing -
„Það er ótrúlega gaman að taka þátt í úrslitahelginni í bikarnum. Nokkrir okkar hafa reynslu af þátttökunni síðast í mars 2020 þegar við komumst í úrslitaleikinn,“ sagði Tandri Már Konráðsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við handbolta.is í vikunni. Stjarnan mætir Fram í síðari undanúrslitaleik Coca Cola-bikarsins í handknattleik í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld kl. 20.30.
Stjarnan leikur í fjórtánda skipti í undanúrslitum bikarkeppninnar að þessu sinni. Þar af hefur liðið níu sinnum leikið til úrslita. Fyrst komst Stjarnan í undanúrslit 1984 og lagði Val, 21:19, í undanúrslitum en varð að sætta sig við tap fyrir afar sterku liði Víkings í úrslitaleik, 24:21. Fyrsti sigur Stjörnunnar í bikarkeppninni í karlaflokki átti sér stað þremur árum síðar. Stjarnan lagði þá Fram, 26:22, í úrslitaleik.
„Okkur hefur gengið vel fram til þessa á keppnistímabilinu þótt við höfum ekki leikið margra leiki. Menn er innstilltir á að bikarleikirnir eru upp á allt og ekkert og ég finn ekki annað en að menn séu vel einbeittir og staðráðnir í að fara alla leið,“ sagði Tandri Már.
Eins og áður þá eru Pétur Árni Hauksson og Brynjar Hólm Grétarsson fjarri góðu gamni að þessu sinni í liði Stjörnunnar. Báðir eru að jafna sig af meiðslum. Eins er óljóst með þátttöku Gunnars Steins Jónssonar sem hefur átt við meiðsli að etja.
Þrátt fyrir mikla uppstokkun í liði Stjörnunnar síðan hún lék til undanúrslita og síðar úrslita í Coca Cola-bikarnum í mars 2020 er enn nokkrir leikmennn úr því liði sem verða í eldlínunni í kvöld. Má þar m.a. nefna Leó Snæ Pétursson, Sverri Eyjólfsson, Starra Friðriksson auk Tandra sem er eins og áður fyrirliði Stjörnunnar.
- Auglýsing -