Sænska landsliðið í handknattleik kvenna fór heim af heimsmeistaramótinu í Þýskalandi í morgun. Liðið tapaði þremur af sex viðureignum sínum á mótinu og átti engan möguleika lengur á sæti í átta liða úrslitum þegar það tapaði viðureigninni við Angóla í gær. Öll spjót standa á landsliðsþjálfaranum, Tomas Axnér.
Tapið er hneisa
Þótt leikurinn Angóla hafi engu breytt neinu um framhaldið hjá sænska landsliðinu þá þótti tapið fyrir Afríkumeisturunum í gær vera hneisa fyrir landsliðið sem hafði áður tapað fyrir norska landsliðinu með 13 marka mun og fyrir brasilíska landsliðinu í úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitum.
Sænska landsliðið var harðlega gagnrýnt í heimalandinu meðan HM fór fram en eftir tapið fyrir Angóla í gær hafa óánægjuraddirnar hækkað róminn. Talað er um hneyksli og hrun.
Leikurinn gegn Angóla var að vissu leyti tilgangslaus. Noregur og Brasilía höfðu þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitum úr milliriðli fjögur, svo það eina sem var í húfi var heiðurinn.
Hrun á öllum vígstöðvum
„Enginn tekur ábyrgð, enginn stígur fram. Það er hrun á öllum vígstöðvum. Hver og einn í liðinu verður að líta vel í eigin barm,“ segir Isabelle Gulldén við Expressen. Gulldén er nú sérfræðingur hjá Viaplay í Svíþjóð. Hún bætir við að niðurstaðan sé áfall fyrir sænskan handknattleik.
Sænska landsliðið verður á meðal þeirra liða sem hafna í 13. til 16. sæti mótsins sem er langt frá vonum. Sænska landsliðið varð í fjórða sæti á HM fyrir tveimur árum og í fimmta sæti á EM fyrir ári.
Er tími Axnér á enda runninn?
Margir setja spurningamerki við framtíð landsliðsþjálfarans Tomas Axnér sem stýrt hefur landsliðinu í fimm ár, þar af síðasta árið samhliða þjálfun danska liðsins Team Esbjerg.
„Framtíð Axnér er eitthvað sem verður að skoða. Honum hefur að minnsta kosti ekki tekist vel upp á þessu móti. Þá verður fara ofan í saumana á því hvort Axnér sé rétti maðurinn til að stýra landsliðinu áfram,“ segir Louise Føns sérfræðingur TV2.
Axnér er samningsbundinn sænska handknattleikssambandinu fram yfir Ólympíuleikana í Los Angeles sumarið 2028.


