Elísabet Ása Einarsdóttir hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Gróttu út tímabilið 2028. Elísabet Ása er 18 ára gömul og leikur sem leikstjórnandi og skytta. Hún hefur verið í lykilhlutverki með 3. flokki kvenna undanfarin ár en Gróttuliðið hefur ekki tapað leik á þessu leiktímabili.
„Í meistaraflokki hefur hún komið öflug inn í seinustu leikjum og valdið miklum usla í varnarleik andstæðinganna. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún leikið 37 leiki með meistaraflokki,“ segir m.a. í tilkynningu Gróttu.
Elísabet Ása hefur verið viðloðandi yngra landslið Íslands og var til að mynda valin í seinasta landsliðshóp U20 ára landsliðsins sem æfði í nóvember.
Það verður gaman að fylgjast með Elísabetu Ásu taka næstu skref í búningi Gróttu. „Það er gaman að vinna með Tásu, hún er viljug og virkilega öflugur leikmaður. Ég hlakka mikið til að hjálpa henni að verða enn betri leikmaður“, er haft eftir Júlíusi Þóri Stefánssyni þjálfara Gróttu í tilkynningu.
Grótta, sem er í öðru sæti Grill 66-deildar kvenna, mætir efsta liðinu, HK, í Kórnum á föstudaginn klukkan 20.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.



