Helle Thomsen, landsliðsþjálfara danska landsliðsins, var nóg boðið í nótt þegar gleðskapur leikmanna landsliða Austurríkis og Póllands á hóteli liðanna í Rotterdam keyrði úr hófi fram að hennar mati. Thomsen gat ekki fest svefn ásamt fleiri leikmönnum danska landsliðsins eftir því sem fjölmiðlar greina frá.
Thomsen kastaði af sér sænginni, rauk niður í jarðhæð hótelsins og bað leikmenn landsliðanna tveggja að sýna öðrum gestum tillitssemi með því draga úr gauragangi sem partýhaldinu fylgdi.
Leikmenn austurríska og pólska landsliðanna voru að ljúka keppni í gærkvöld og tóku væntanlega landlegu þindarlaust út, eins og sagði í söngtextanum, allt þar til Thomsen mætti á svæðið og óskaði eftir svefnfriði. Var óskum hennar vinsamlega tekið.
Danska landsliðið leikur við Frakkland í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins annað kvöld, miðvikudag, kl. 20.



