Danski handknattleiksmaðurinn Oscar Sven Leithoff Lykke, sem farið hefur mikinn með Aftureldingu í undanförnum leikjum í Olísdeildinni, var ekki með í kvöld þegar Afturelding lagði KA, 28:22, í 14. umferðinni í KA-heimilinu.
Stefán Árnason þjálfari Aftureldingar sagði við handbolta.is eftir leikinn í kvöld að Lykke finni til eymsla í baki. Þar af leiðandi hafi ekki þótt ráðlagt að hann færi í langa rútuferð norður yfir heiðar og til baka aftur. Langar setur í langferðabifreiðum eru yfirleitt ekki til bóta fyrir fólk sem kennir eymsla í baki.
Fram undan eru tveir leikir hjá Aftureldingu fyrir jólaleyfi, gegn ÍR í Olísdeildinni á mánudagskvöld í Myntkaup-höllinni að Varmá og afar mikivægur leikur við FH í átta liða úrslitum bikarkeppni HSÍ á föstudaginn eftir viku.




