„Við komum af miklum krafti inn í leikinn og þess vegna hafði ég mjög góða tilfinningu strax frá byrjun,“ sagði Stefán Árnason þjálfari Aftureldingar í viðtali við sjónvarp Símans/Handboltapassann eftir sigurleik Aftureldingar á KA, 28:22, í 14. umferð Olísdeildar karla í KA-heimilinu í gærkvöld.
Náðu átta marka forskoti
„Við vorum marki yfir í hálfleik þótt við hefðum farið illa að ráði okkar í sókninni. Vörnin var hins vegar mjög góð. Í byrjun síðari hálfleiks tókst okkur að skora úr flestum sóknum og um leið skila okkur vel aftur í vörnina. KA tókst ekki að skora fyrstu tólf mínúturnar í síðari hálfleik. Þá jukum við muninn,“ sagði Stefán en Aftureldingarliðið breytti stöðunni úr 11:10 í 18:10 á fyrstu 13 mínútum síðari hálfleiks.
„Vörnin var hrikalega góð hjá okkur allan leikinn auk þess sem sóknin var á köflum góð. Ég er þar af leiðandi mjög ánægður að fara með sigur í KA-heimilinu,“ sagði Stefán sem er að hluta til alinn upp í KA-heimilinu og starfaði hjá KA árum saman.
Næstu leikir á mánudag
Næsti leikur Aftureldingar verður á heimavelli gegn ÍR á mánudagskvöld. Sama kvöld tekur KA á móti HK í KA-heimilinu.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Aftureldingarmenn fóru illa með KA
Þorvaldur sneri sig á ökkla – tökum stöðuna næstu daga



