Arnór Þór Gunnarsson og liðsmenn hans í Bergischer HC unnu sér í kvöld sæti í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik. Bergischer HC lagði MT Melsungen sem leikið hefur til úrslita í bikarkeppninni tvö undangengin ár, 30:23, á heimavelli í átta liða úrslitum.
Úrslitahelgi bikarkeppninnar verður 18. og 19. apríl í Lanxess Arena í Köln.
Füchse Berlin vann THW Kiel, 32:30, á heimavelli í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í kvöld. Magdeburg komst einnig í undanúrslit í kvöld með öruggum sigri á Flensburg, 35:29.
Lemgo verður fjórða liðið í undanúrslitum bikarkeppninnar. Lemgo lagði Leipzig, 35:27.
Ómar Ingi skoraði 11 mörk
Ómar Ingi Magnússon átti enn einn stórleikinn með Magdeburg í kvöld. Hann skoraði 11 mörk, þar af fimm úr vítaköstum. Einnig gaf hann fjórar stoðsendingar. Elvar Örn Jónsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoruðu eitt mark hvort. Gísli Þorgeir gaf auk þess fimm stoðsendingar.
Hvorki Arnar Freyr Arnarsson né Reynir Þór Stefánsson voru á meðal markaskorara MT Melsungen í tapleiknum.
Þegar ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum
Þegar hefur verið dregið í undanúrslit bikarkeppninnar. Bergischer mætir Magdeburg og Füchse Berlin leikur við Lemgo.
Eins og áður segir fara undanúrslitaleikirnir fram 18. apríl og úrslitaleikirnir daginn eftir en bæði er leikið um gullverðlaunin og einnig um 3. sætið.




