- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

„Valið var erfiðara en oft áður“

- Auglýsing -

„Ég var búinn að velta valinu mikið fyrir mér áður en ég kynnti hópinn. Kannski velti ég hlutunum of mikið fyrir mér en víst er að það var erfitt að ákveða hverjir færu og hverjir ekki,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik eftir að hann valdi leikmannahópinn sem tekur þátt í Evrópumótinu í handknattleik í næsta mánuði.

Athygli vakti þegar hópurinn var kynntur í gær að Sigvaldi Björn Guðjónsson, sem hefur tekið þátt í öllum stórmótum landsliðsins frá 2019, verður ekki með á EM. Einnig var Stiven Tobar Valencia skilinn eftir en hann hefur verið út og inn úr landsliðinu síðustu ár. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, var valinn sem þriðja örvhenta skyttan. Andri Már Rúnarsson er eini stórmótanýliði hópsins sem finna má hér.

Frábærir leikmenn og drengir góðir

„Valið var erfiðara en oft áður vegna þess meðal annars að Stiven [Tobar Valencia] og Sigvaldi [Björn Guðjónsson] eru frábærir leikmenn og góðir drengir sem eiga alveg skilið að vera í hópnum. Á endanum er valið hjá mér sambland af hvað maður telur að henti best í taktísku uppleggi,“ sagði Snorri Steinn.

Mjótt á mununum

„Ég hef oft komið inn á það áður að Stiven hefur þann kost að geta leikið sem bakvörður í vörn en það spilar fleira inn í að vera hornamaður. Ég fór bara yfir alla þætti, tölfræði, leiknar mínútur og reynslu. Einnig hafði það sitt að segja að Orri Freyr Þorkelsson er að fara á sitt annað stórmót og Stiven hefur ekki mikla reynslu meðan Bjarki Már er þrautreyndur. Það var ekki eina atriðið en segja má að það hafi verið mjótt á mununum þegar ég gerði upp á milli þessara þriggja leikmanna,“ sagði Snorri Steinn.

Meiðsli Sigvalda Björns

Snorri Steinn segir að Sigvaldi Björn hafi meiðst á æfingu landsliðsins í Þýskalandi í lok október. Hann hafi jafnað sig eftir það en síðan hafi komið bakslag í meiðslin. „Segja má að meiðslin hafi orðið honum dýr á þessum tímapunkti. Ég ákvað þar með að velja Teit Örn Einarsson sem hægri hornamann með Óðni Þór Ríkharðssyni. Teitur Örn leikur nánast eingöngu sem hornamaður í sóknarleik Gummersbach.

Óðinn Þór verður númer eitt

Ég vil hins vegar í þessari stöðu sem við erum í að Óðinn Þór sé hornamaður númer eitt. Hann hefur alla burði til þess og hefur mitt traust til þess,“ sagði Snorri Steinn.

Donni gefur aðra möguleika

Kristján Örn Kristjánsson, Donni, er þriðja örvhenta skyttan með Ómari Inga Magnússyni og Viggó Kristjánssyni. Snorri Steinn segir Donna hafa aðra eiginleika en Ómar Ingi og Viggó. Hann er hávaxnari og getur beitt sér með uppstökkum í meira mæli en hinir. „Donni gefur okkur aðra möguleika. Þegar við bætist óvissan með meiðsli Þorsteins Leós þá fannst mér ekki úr vegi að hafa Donna með og þá skotógn sem af honum stafar. Það getur komið sér vel í einhverjum af þeim leikjum sem okkar bíða á EM.

Auk þess hefur Viggó verið að glíma við meiðsli ofan á annað og gríðarlega mikið álag hefur verið á Ómari Inga síðustu mánuði. Þegar við bættust meiðsli Sigvalda þá valdi ég þessa leið með vinstri vænginn,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik.

Allir hafa sína drauma og stefna hátt

„Þátttaka Þorsteins á EM er í óvissu eins og er“

EM-hópur Íslands liggur fyrir

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -