Randi Gustad, forseti norska handknattleikssambandsins, sýnir enga hálfvelgju heldur staðfestir við VG að Noregur ætli ekki styðja Hassan Moustafa í forsetakjöri IHF á sunnudag og kallar þar með eftir leiðtogaskiptum hjá Alþjóða handknattleikssambandinu.
Að sögn Gustad, sem tók við formennsku í norska sambandinu í vor og hefur síðan sýnt að hún hefur hefur bein í nefinu, er kominn tími á leiðtogaskipti í alþjóðlegum handknattleik eftir 25 ár með sama forseta sem nú er kominn á 82. aldursár.
Fá alþjóðleg handknattleikssambönd hafa gefið upp afstöðu sína til frambjóðendanna sem eru auk Moustafa þrír Evrópubúar; Slóveninn Franc Bobinac, Þjóðverjinn Gerd Butzeck og Hollendingurinn Tjark de Lange.
M.a. hafa handknattleikssambönd Danmerkur og Íslands ekki treyst sér til þess að lýsa því yfir hvern þau ætli að styðja.
Noregur hefur þó ekki enn ákveðið hver þremenninganna fær atkvæðið í fyrstu umferð en margir reikna með að tvær umferðir þurfi til að knýja fram niðurstöðu.
„Alþjóðlegur handknattleikur þarfnast leiðtogaskipta,“ segir Randi Gustad við VG.
Þing IHF hófst síðdegis og stendur fram á sunnudag. Sitjandi forseti, Hassan Moustafa, býður sig fram til endurkjörs. Hinn 81 árs gamli Egypti hefur stýrt alþjóðlegum handknattleik frá árinu 2000 en mætir nú í fyrsta sinn í 16 ár mótspyrnu í forsetakjöri.



