Áfram heldur að gefa á bátinn hjá norska úrvalsdeildarliðinu Kolstad. Eftir stöðugar fréttir af slæmum fjárhag og niðurskurði síðustu vikur þá tapaði liðið óvænt fyrir Fjellhammer, 31:25, í norsku úrvalsdeildinni í gær. Fyrir vikið tapaði liðið efsta sæti deildarinnar vegna þess að leikmenn Elverum voru ekki lengi að nýta tækifærið sem gafst. Elverum lagði Drammen á útivelli, 37:31, eftir að hafa farið á kostum í fyrri hálfleik og skorað 24 mörk.
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði eitt mark fyrir Kolstad í tapleiknum gegn Fjellhammer. Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sigurjón Guðmundsson markvörður komu ekkert við sögu. Þá telst það til tíðinda að sænski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Palicka varði ekki skot þann tíma sem hann var í marki Kolstad.
- Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark í sigri Elverum í Drammen. Selfyssingnum var einu sinni vikið af leikvelli.
- Drammen er í fimmta sæti deildarinnar eftir tapið í gær með 19 stig eftir 15 leiki, átta stigum á eftir Elverum.
- Ísak Steinsson varði 6 skot í marki Drammen ef marka má tölfræðina á heimasíðu norska handknattleikssambandsins, 29%. Oscar Larsen Syvertsen, hinn markvörður Drammen, fékk einnig að spreyta sig en náði sér ekki á strik.
- Dagur Gautason var ekki á meðal markaskorara ØIF Arendal í naumum sigri á Sandnes, 29:28, á heimavelli.
Staðan í norsku úrvalsdeildinni:



