Rúnar Sigtryggsson stýrði HSG Wetzlar til sigurs í fyrsta heimaleiknum gegn Eisenach í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld, 33:27. Þetta var fyrsti sigur Wetzlar eftir að Rúnar var kallaður til starfa hjá liðinu fyrir rúmri viku í þeim tilgangi að snúa við gengi liðsins sem hafði verið afleitt fram til þess tíma. Með sigrinum færðist Wetzlar upp úr botnsæti þýsku 1. deildar og skildi Leipzig eftir í 18. og síðasta sæti.
Um leið er sigurinn aðeins sá þriðji hjá Wetzlar á keppnistímabilinu en liðið hafði tapað 11 leikjum í röð.
Framan af leiknum í dag blés ekki byrlega fyrir Rúnari og liðsmönnum. Þeir voru þremur mörkum undir í hálfleik, 15:12. Eisenach var áfram yfir á upphafsmínútum síðari hálfleiks áður en lærisveinar Rúnars blésu í herlúðra og tóku um leið öll völd á leikvellinum.
Tólf mínútum fyrir leikslok komst Wetzlar í fyrsta sinn tveimur mörkum yfir, 24:22. Allt féll síðan með leikmönnum Wetzlar á endasprettinum.
Dominik Mappes átti stórleik í liði Wetzlar og skoraði 13 mörk.


