- Auglýsing -
- Hin bosnísksættaða danska landsliðskona, Elma Halilcevic, hefur framlengt samning sinn við meistaraliðið Odense Håndbold. Hún hefur leikið með liðinu síðustu tvö ár en var áður með uppeldisfélagi sínu, Esbjerg, auk stuttrar dvalar hjá Nykøbing Falster.
- Markvörðurinn þrautreyndi, Roland Mikler, er ekki í ungverska landsliðinu sem tekur þátt í EM. Mikler segir að hugmyndir hans Chema Rodríguez landsliðsþjálfara hafi ekki fallið saman. M.a. segist Mikler, sem er orðinn fertugur, ekki vera tilbúinn að leika annan hvern dag eins og nánast er regla á stórmótum.
- Mikler stendur á fertugu og hefur tekið þátt í 252 landsleikjum og stundum reynst íslenskum landsliðsmönnum óþægur ljár í þúfu. Hann er samningsbundinn Pick Szeged í Ungverjalandi.
- Nær fullvíst er talið að sænski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Palicka gangi til liðs við Füchse Berlin í sumar. Eins árs samningur Berlínarliðsins mun liggja á borðinu hjá Palicka sem lýkur keppnistímabilinu hjá Kolstad í Þrándheimi. Norska liðið er í fjárhagslegri spennutreyju um þessar mundir og þarf að skera verulega niður í útgjöldum eins og m.a. hefur komið fram á handbolti.is.
- Marte Juuhl Svensson, markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar í kvennaflokki, hefur ákveðið að söðla um í sumar og ganga til liðs við meistaraliðið Storhamar. Svensson leikur nú með Romerike Ravens í Lilleström. Hún hefur skorað 80 mörk fyrir liðið í fyrstu 10 umferðum úrvalsdeildar.
- Svensson var samherji Söndru Erlingsdóttur hjá TuS Metzingen leiktíðina 2023/2024 en flutti sumarið 2024 heim til Noregs eftir þriggja ára veru hjá þýska liðinu.
- Auglýsing -



