Óðinn Þór Ríkharðsson og liðsfélagar í Kadetten Schaffhausen standa í ströngu síðdegis í dag þegar þeir mæta TSV St. Otmar St. Gallen í undanúrslitum bikarkeppninnar í Sviss. Leikið verður í Pilatus Arena í Luzern. Sigurliðið mætir annaðhvort Pfadi Winterthur eða BSV Stans í úrslitaleik á morgun.
Tíu sinnum bikarmeistari
Kadetten Schaffhausen hefur tíu sinnum unnið bikarkeppnina í Sviss, síðast fyrir ári og þar áður 2021 undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar.
Kadetten Schaffhausen hefur unnið allar 18 viðureignir sínar í A-deildinni í Sviss á leiktíðinni. TSV St. Otmar St. Gallen situr í sjötta sæti af 10 liðum deildarinnar. Þegar kemur að undanúrslitaleik í bikarkeppninni þá hefur staða liðanna í deildinni oft harla lítið að segja.
Pfadi Winterthur er í öðru sæti deildarinnar, 11 stigum á eftir Óðni Þór og samherjum. BSV Stans sem leikur við Pfadi Winterthur í hinni viðureign undanúrslitanna í dag á sæti í næstefstu deild.



