Íslensku landsliðskonurnar hjá Blomberg-Lippe kveðja árið 2025 og taka á móti nýju ári í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir öruggan sigur liðsins á heimavelli í kvöld, 34:23, gegn SV Union Halle-Neustadt. Blomberg-Lippe hefur 16 stig eftir níu umferðir, líkt og HSG Bensheim/Auerbach. Blomberg-Lippe stendur betur að vígi. Borussia Dortmund er skammt á eftir með 14 stig eftir átta leiki.
Andrea Jacobsen var markahæst íslensku landsliðskvennanna með fimm mörk. Einnig átti hún þrjár stoðsendingar í leiknum.
Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði þrjú mörk, átti eina stoðsendingu, nappaði boltanum einu sinni af mótherjanum og náði einu frákasti.
Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði tvö mörk, gaf tvær stoðsendingar og var með einn stolinn bolta.
Blomberg-Lippe var með fjögurra marka forskot, 17:13, þegar fyrri hálfleikur var að baki. Liðið herti tökin í síðari hálfleik.
Þetta er á dagskrá í janúar
Laugardaginn 3. janúar er næsti leikur Blomberg-Lippe-liðsins. Það verður sannkallaður stórleikur gegn Borussia Dortmund í Sporthalle Wellinghofen í Dortmund. Janúar verður annasamur hjá leikmönnum Blomberg-Lippe því auk þéttrar dagskrár í deildinni heima fyrir hefst riðlakeppni Evrópudeildarinnar í fyrri hluta mánaðarins.



