Bjarki Már Elísson var á æfingu landsliðsins í gær og í morgun í Safamýri en tók ekki þátt í æfingum með samherjum sínum heldur sinnti séræfingum. Handbolti.is var í Safamýri í morgun og sá Bjarka Má þar klæddan æfingafatnaði við léttar æfingar lengst af þess tíma sem landsliðsmenn voru í salnum á milli klukkan 10.30 og til rúmlega 12. Í uppstilltum leik í lok æfingarinnar var Einar Þorsteinn Ólafsson vinstri hornamaður í öðru liðinu.
Eftir því sem næst verður komist er um tognun í kálfa að ræða sem vonir standa til að Bjarki Már geti jafnað sig á áður en átökin hefjast á Evrópumótinu. Staða hans ætti að skýrast á allra næstu dögum enda má telja víst að landsliðsþjálfarinn vilji ekki hafa mörg spurningamerki í sínum hóp áður en haldið verður frá Íslandi þegar hallar á næstu viku.
Þegar leikur vafi á um þátttöku Þorsteins Leós Gunnarssonar vegna nárameiðsla. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, dró sig alfarið út úr hópnum í morgun vegna gruns um kviðslit. Þar með eru 17 leikmenn eftir af 19 sem valdir voru í EM-hópinn og ef vafi leikur á um Bjarka Má standa ekki eftir nema 16 leikmenn klárir í törnina í Svíþjóð.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar
Donni verður ekki með á EM – dregur sig út vegna meiðsla
Talið er að Donni sé kviðslitinn




