„Það tekur alltaf sinn tíma að stíga fyrstu skrefin hjá nýju liði, komast inn í nýtt leikskipulag, kynnast nýjum þjálfara og samherjum. Það hjálpaði mér mikið að Viggó er leikmaður Erlangen. Ég spilaði með honum hjá Leipzig,“ segir Andri Már Rúnarsson landsliðsmaður í handknattleik spurður um hvernig gengið hafi að aðlagast nýju liði og samherjum hjá þýska liðinu HC Erlangen. Andri gekk til liðs við Erlangen í sumar.
Þekkti Viggó og fleiri
„Auk Viggós þá þekkti ég nokkra leikmenn fyrir. Allt þetta auðveldaði mér að komast inn í liði. Þar að auki er ég með þýskuna á hreinu. Ég þurfti mest að kynnast nýjum þjálfara og leikskipulagi,“ sagði Andri Már er handbolti.is hitti hann á landsliðsæfingu í Safamýri.
„Það tók sinn tíma að jafna sig en núna eftir hálft tímabil er ég kominn á beina braut ef undan eru skilin smávægileg meiðsli í haust og aftur fyrir jólin. Ég er á fínu róli en á mikið inni enn þá.“
Fyrstu landsleikirnir gegn Grikkjum
Andri Már Rúnarsson er 23 ára gamall. Hann tekur í fyrsta sinn þátt í stórmóti þegar flautað verður til leiks á Evrópumótinu í handknattleik í Danmörku, Noregi og Svíþjóð 15. janúar. Andri Már hefur leikið 5 landsleiki og skorað 4 mörk. Fyrsti A-landsleikurinn var gegn Grikkjum í Chalkida 12. mars og síðast var Andri Már með landsliðinu í leik við Þýskalandi í München í byrjun nóvember.
Andri Már hefur leikið með Stjörnunni, Fram og Haukum hér heima og Stuttgart, Leipzig og HC Erlangen í Þýskalandi auk þess að vera í unglingaakademíu Leipzig á táningsárum og eiga rætur að rekja til Þórs Akureyri.




