„Leikirnir í Frakklandi verða mikilvægir fyrir okkur. Í þeim viljum við fá svör við ýmsum þáttum þannig að okkur líði vel áður en EM hefst í Svíþjóð eftir rúma viku,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla spurður út í æfingaferð landsliðsins til Frakklands í dag. Fram undan eru tveir vináttuleikir skammt utan við París. Á föstudaginn klukkan 17.30 gegn Slóvenum og á sunnudaginn klukkan 13.30 við annaðhvort Austurríki eða Frakkland.
Sigrar næra mann betur en töp
„Sigrar næra mann betur en töp. Við verðum að nálgast viðureignir með það í huga að vinna. Á sama tíma er stutt í alvöruna á EM. Við verðum að fá svör við spurningum, prófa ákveðin atriði og víst er að það mun ekki allt ganga eins og smurt. Einnig verður nauðsynlegt að dreifa álaginu. Ég vil fá frammistöðu og að við leikum eins og menn,“ sagði Snorri Steinn.
„Fyrst og fremst verðum við að spila okkur saman þannig að okkur líði sem best þegar til Kristianstad verður komið á miðvikudaginn í næstu viku,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari.
Leikir Íslands á æfingamótinu í Frakklandi:
Föstudagur 9. jan.: Ísland - Slóvenía, kl. 17.30.
Sunnudagur 11. jan.: Ísland - Austurríki eða Frakkland, kl. 13.30.
- Leikirnir verða sendir út beint á RÚV.




