- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Vil ekki koma aftur til Ungverjalands eftir enn einn tapleikinn

- Auglýsing -

„Við horfum ekkert lengra en fram á leikina þrjá í riðlakeppninni. Allir sem fylgjast með mótinu vita hvernig leiðin liggur alla leið. Hugsanlegur milliriðill er sagður hagstæður og svo framvegis. Í okkar huga nær hugsunin sem stendur ekkert lengra en að komast í gegnum riðilinn í Kristianstad og taka stöðuna að leikjunum loknum,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik við handbolta.is í vikunni og spurður um væntingar hans til árangurs á Evrópumótinu sem fram undan er.

Vil vinna Ungverja

„Ég vil vinna Ungverja því mig langar ekki að koma enn einu sinni til Ungverjalands eftir enn einn tapleikinn fyrir þeim,“ segir Bjarki Már sem býr í Ungverjalandi og leikur með meistaraliðinu One Veszprém.

„Fyrir utan Ungverja þykir mér riðillinn vera spennandi með Pólverjum og Ítölum. Þetta eru þjóðir sem við höfum ekki oft leikið við á síðustu árum, eða að minnsta kosti ekki þegar ég hef verið með landsliðinu.

Vonandi fáum við þrjá góða leiki í Kristianstad og förum áfram með tvö stig í milliriðil. Það er að minnsta kosti draumurinn,“ sagði Bjarki Már sem tekur brátt þátt í 10. stórmótinu með landsliðinu.

F-riðill (Kristianstad Arena, Kristianstad)
16. janúar: Ísland – Ítalía, kl. 17.
16. janúar: Ungverjaland – Pólland, kl. 19.30.
18. janúar: Pólland – Ísland, kl. 17.
18. janúar: Ítalía – Ungverjaland, kl. 19.30.
20. janúar: Pólland – Ítalía, kl. 17.
20. janúar: Ungverjaland – Ísland, kl. 19.30.

Hlakkar til að vera í Kristianstad

„Ég hlakka til að koma aftur til Kristianstad. Það var mjög skemmtilegt að spila þar á HM 2023 með þúsundum Íslendinga í geggjaðri stemningu. Vonandi getum við núna gert betur gegn Ungverjum en fyrir þremur árum þegar allt fór í baklás síðasta korterið. Þá virtumst við í huganum vera farnir að kæla kampavínið fyrir milliriðlana en tókst einhvern ótrúlegan hátt að klúðra leiknum,“ sagði Bjarki Már Elísson.

Skipbrotið í Kristianstad

Leiknum, sem Bjarki Már vísar til frá Kristianstad 2023, lauk með sigri Ungverja, 30:28. Íslenska liðið var með sex marka forskot, 25:19, þegar 18 mínútur voru til leiksloka. Virtist liðið halda Ungverjum í skrúfstykki áður en skyndilegt undanhald hófst. Sjö mínútum fyrir leikslok hélt íslenska liðið enn þriggja marka forskoti, 28:25. Ungverjar skoruðu síðustu fimm mörkin í viðureigninni meðan leikmenn íslenska landsliðsins eða þjálfarinn virtust ekki vita sitt rjúkandi ráð.
Stigin tvö sem töpuðust í leiknum áttu stærstan þátt í því að íslenska liðinu tókst ekki að komast í 8-liða úrslit og tryggja sér farseðil í forkeppni Ólympíuleikanna 2024.

EM 2026.

A-landslið karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -