Eitt þekktasta dómaraparið í alþjóðlegum handknattleik á síðari árum, Norður Makedóníumennirnir Slave Nikolov og Gjorgji Nachevski, dæma ekki á Evrópumóti karla í handknattleik. Þeir hafa verið settir út í kuldann með skömm í hatti hjá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, nokkrum dögum áður en þeir áttu að mæta til leiks og dæma á Evrópumóti karla í handknattleik.
Sterkur grunur leikur á að myndskeið sem þeir félagar sendu inn frá þrekprófi sé falsað. Í ljósi þessa hefur EHF ákveðið að afturkalla þátttöku dómaranna og mun senda málið til dómstóla EHF leiði frekari rannsókn í ljós að grunur um fölsun sé á rökum reistur.
Sem hluti af undirbúningi fyrir EM-mót þurfa öll dómarapör að gangast undir skyldubundna líkamsþjálfun og líkamsástandspróf í aðdraganda stórmóta. Þetta ferli er hannað til að tryggja líkamlegt hæfi dómaranna svo þeir uppfylli kröfur sem til þeirra eru gerðar varðandi líkamlegt ásigkomulag. Dómarar verða að senda inn upptökur frá tveimur þrekprófum, annað átta vikum fyrir mót og hitt fjórum vikum áður mót hefst. Þessi myndbönd eru metin af Fitgood Pro, samstarfsfyrirtæki EHF.
Grunur vaknaði strax
„Eftir að Nikolov og Nachevski sendu inn upptökurnar til Handknattleikssambands Evrópu í lok desember vaknaði sterkur grunur um að myndböndin sem dómararnir tveir sendu inn gætu verið fölsuð og gæfu ekki rétta mynd af öllu prófinu. EHF lét í kjölfarið sérfræðinga Fitgood Pro rannsaka efnið
Ítarleg greining leiddi í ljós vísbendingar um að miklar líkur séu á að myndböndunum hafi verið hagrætt,“ segir í tilkynningu EHF, sem áskilur sér rétt til að rannsaka málið og fara með það fyrir dómstóla EHF.
Nikolov og Nachevski hafa dæmt marga af stærstu handboltaleikjum í Evrópu undanfarin ár, bæði á stórmótum landsliða og í Meistaradeild Evrópu.
EM 2026 – fréttasíða.



