Landslið Lettlands í handknattleik er komið áfram í undankeppni EM 2028 í karlaflokki eftir öruggan sigur á Bretum, 40:25, á heimavelli í dag í síðari umferð forkeppninnar. Alexander Petersson er aðstoðarþjálfari lettneska landsliðsins.
Lettar unnu einnig fyrri viðureign liðanna í nýliðinni viku þegar leikið var í Nottingham á Englandi.
Endjis Kusners leikmaður Harðar á Ísafirði skoraði þrjú mörk fyrir lettneska landsliðið í dag. Valdis Kalnis var markahæstur með 10 mörk.
Tyrkir tryggðu sér einnig sæti í undankeppni EM 2028. Þeir lögðu Búlgara á heimavelli í dag, 38:29. Tyrkneska liðið vann einnig fyrri leikinn sem leikinn var í Búlgaríu.
Í kvöld stóð til að Eistlendingar og Kýpurbúar mættust öðru sinni í forkeppninni. Svo virðist sem ekkert verði af leiknum. Eistlendingar unnu fyrri viðureignina á Nikósíu, 31:27.
Riðlakeppni EM hefst í haust og verður leikin frá nóvember og fram til maí á næsta ári. Dregið verður til undankeppninnar í vor.



