Handknattleikskonurnar Birta Rún Grétarsdóttir og Dana Björg Guðmundsdóttir fögnuðu báðar sigrum með liðum sínum í dag í Noregi, hvor í sinni deildinni.
Birta Rún skoraði þrjú mörk í öruggum sigri Fjellhammer í heimsókn til Oppsal, 35:27, í síðasta leik 11. umferðar norsku úrvalsdeildarinnar. Fjellahmmer var fimm mörkum yfir í hálfleik, 17:12. Liðið færðist upp um eitt sæti með sigrinum, situr nú í 12. sæti af 14 liðum úrvalsdeildarinnar með sex stig.
Dana Björg og félagar í Volda komust aftur inn á sigursporið í dag. Volda lagði Kjelsås, 25:20, á heimavelli. Dana Björg skoraði átta mörk og var markhæst.
Volda er í fimmta sæti með 19 stig eftir 13 leiki. Flint Tønsberg er efst með 26 stig og Utleira er næst á eftir með 23 stig.



