- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Ég er sáttur við stöðuna á okkur

- Auglýsing -

„Ég er smá svekktur að ná ekki jafntefli við Frakka en á móti kemur að við vorum að spila á útivelli gegn frábæru liði,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í viðtali við handbolta.is í gærkvöld eftir tveggja marka tap íslenska landsliðsins fyrir Evrópumeisturum Frakka í síðari vináttuleiknum í París, 31:29.

Leikið var í Paris La Défense Arena að viðstöddum 13.774 áhorfendum.


Íslenska landsliðið verður í París fram á miðvikudagsmorgun þegar það fer til Kristianstad í Svíþjóð með millilendingu á Kastrup.

Grunnatriðin gengu vel

„Á heildina litið þá voru leikirnir tveir, gegn Frökkum og Slóvenum, góðir. Þeir gerðu margt fyrir okkur og svöruðu ýmsum spurningum. Mörg grunnatriði gengu vel, okkur leið vel í leikjunum sem er mikilvægt,“ sagði Snorri Steinn sem reyndi ýmsar uppstillingar, jafnt í vörn sem sókn í báðum leikjum, ekki síst í gær gegn Frökkum.

Til þess voru leikirnir

„Sumt var fyrir fram ákveðið en annað kom til í hita leiksins. Að einhverju leyti bar leikurinn við Frakka þess merki að um vináttuleik var að ræða, sé litið til skiptinganna. Maður hefur vafalaust gert annað ef um mótsleik hefði verið að ræða. Til þess eru leikir sem þessir, að reyna eitthvað sem maður gerir kannski ekki þegar út í meiri alvöru er komið,“ sagði Snorri Steinn sem mun rýna í frammistöðuna í leikjunum við Slóvena og Frakka ásamt samstarfsmönnum sínum áður en haldið verður til Svíþjóðar.

Eigum enn eitthvað uppi í erminni

„Eitt og annað gekk vel, annað getum við lagað og síðan eigum við enn eitthvað upp í erminni sem við létum ekki á reyna. Nú tekur við lokafasi undirbúningsins fyrir EM. Eins og staðan er núna getum við verið sáttir með stöðuna á okkur. Við erum á ágætum stað í ferlinum, að mínu mati,“ sagði Snorri Steinn.

Fer áfram sáttur á koddann

Spurður hvort aðvörunarljós hafi kviknað hjá honum í leikjunum, ljós sem héldi fyrir honum vöku næstu daga, sagði Snorri Steinn svo ekki vera.

„Ég held að ég fari áfram sáttur á koddann. Ég tel okkur standa í þeim sporum að vera nánast klárir í bátana. Leikmenn komust heilir frá leikjunum sem er mikilvægt.

Við eigum ýmislegt inni. Ég lagði ekki öll spilin á borðið í leikjunum tveimur. Okkur líður vel með það sem höfum sýnt síðustu daga sem er ef til vill mikilvægast þegar öllu er á botninn hvolft,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is.

Frakkar ívið sterkari í lokadansinum fyrir EM

A-landslið karla.

EM 2026.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -